ÍR marði Gróttu eftir framlengingu

Sturla Ásgeirsson og félagar í ÍR áttu í mesta basli …
Sturla Ásgeirsson og félagar í ÍR áttu í mesta basli með Gróttu í fyrsta umspilsleik liðanna í dag. mbl.is/Kristinn

ÍR marði sigur á Gróttu eftir framlengdan leik, 30:29 í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum umspils um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik á næstu leiktíð. ÍR hefur því yfir, 1:0 í einvíginu, en vinna þarf tvo leiki til að komast í úrslit.

Grótta mætti ákveðnari til leiks og hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 15:11. Eftir að Seltirningar komust fimm mörkum yfir, 22:17 fóri ÍR-ingar loks í gang og tókst að jafna í 24:24. Staðan var svo jöfn eftir hefðbundinn 60 mínútna leiktíma, 25:25 og því þurfti að framlengja.

ÍR nýtti reynsluna í framlengingunni og hafði yfir í hálfleik, 28:26. Lokatölur urðu svo 30:29 fyrir ÍR sem áttu í meiriháttar basli með Seltirninga í Austuberginu í dag.

Liðin mætast á ný í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi klukkan 16 á laugardag. Einvígi Stjörnunnar og Selfoss í undanúrslitunum hefst í Mýrinni í Garðabæ í kvöld klukkan 19.30.

Mörk ÍR: Arnar Birkir Hálfdánsson 10, Sigurjón Friðbjörn Björnsson 5, Davíð Georgsson 4, Jón Heiðar Gunnarsson 4, Sturla Ásgeirsson 3, Brynjar Valgeir Steinarsson 2, Daníel Ingi Guðmundsson 2.

Mörk Gróttu: Árni B. Árnason 7, Viggó Kristjánsson 7, Vilhjálmur Geir Hauksson 4, Ólafur Ægir Ólafsson 4, Aron Heiðar Guðmundsson 3, Aron Valur Jóhannesson 3, Þráinn Jónsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert