Ólafur: Hefði verið stórhættulegt að tapa þessum

Ólafur Stefánsson á hliðarlínunni.
Ólafur Stefánsson á hliðarlínunni. mbl.is/Golli

Ólafur Stefánsson, þjálfari Vals, var gerði ekki lítið úr mikilvægi sigursins gegn ÍBV á Hlíðarenda í dag. Valur sigraði 28:24 og staðan er nú jöfn 1:1 í rimmu liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik. 

„Þessi úrslit voru frábær og mikilvægt fyrir okkur að komast inn í rimmuna. Það hefði verið stórhættulegt ef við hefðum tapað þessum því þá hefðum við verið vel upp við vegg en erum komnir aftur í ágæta stöðu. ÍBV er auðvitað hörkulið en við förum núna fullir sjálfstrausts til Eyja,“ sagði Ólafur þegar mbl.is ræddi við hann þegar sigurinn var í höfn. 

Spurður um muninn á frammistöðu Valsmanna samanborið við fyrsta leikinn í Eyjum sem ÍBV vann sagði Ólafur að hans menn hefðu verið talsvert ákveðnari í sínum aðgerðum í dag. „Við vorum aðeins agressívari og aðeins betur stemmdir. Við byrjuðum ekki nógu vel í dag en þó alls ekki eins illa og í Eyjum þar sem við lentum 8:2 undir sem fór eiginlega með leikinn þannig séð. Til þess að komast áfram þá þurfa margir litlir hlutir að vera í lagi og menn verða að höndla þá þegar að því kemur. Við verðum bara að sjá hvað gerist.“

Valsmönnum tókst nánast að halda Róberti Hostert niðri í leiknum og munar um minna en hann skoraði 10 mörk í fyrsta leiknum. „Þegar hann losnaði þá varði Bubbi frá honum. Við vorum aðeins ákveðnari á móti honum en í síðasta leik og það tókst að stöðva hann að einhverju leyti þó hann sé erfiður við að eiga. Í staðinn losnaði um aðra leikmenn enda fullt af góðum handboltamönnum hjá ÍBV,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert