Lyfjanefndin setur Kraus í bann

Michael Kraus.
Michael Kraus.

Michael Kraus, leikmaður Göppingen og þýska landsliðsins í handknattleik, hefur verið dæmdur í ótímabundið keppnisbann af lyfjanefnd þýska handknattleikssambandsins.

Kraus, sem er þrítugur að aldri, er í stórum hópi þýskra íþróttamanna sem eru lyfjaprófaðir reglulega. Hann hefur ekki verið uppvís að neyslu ólöglegra lyfja, en hefur hinsvegar ítrekað ekki mætt í próf eða verið til staðar á tilteknum tímum samkvæmt ákvæðum lyfjanefndarinnar.

Hann getur ekki tekið þátt í undirbúningi Göppingen fyrir keppnistímabilið í Þýskalandi. Bannið tók gildi í fyrradag og lyfjanefndin á eftir að taka ákvörðun um tímalengd þess.

Bernhard Bauer, forseti þýska handknattleikssambandsins, segir við Handball-World að Kraus hafi því miður ekki sýnt nægilegan þroska hvað þetta mál varðar og þurfi að læra af reynslunni.

Gerf Hofele, framkvæmdastjóri Göppingen, segir að félagið virði úrskurð nefndarinnar, enda þótt Kraus hafi ekki verið uppvís að neinu ólöglegu, og bíði eftir endanlegri niðurstöðu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert