Dagur sannfærði Vukovic

Drago Vukovic kemur til Berlínar að ári.
Drago Vukovic kemur til Berlínar að ári. AFP

Bikarmeistaralið Füchse Berlín í þýska handboltanum hefur samið við króatíska landsliðsmanninn Drago Vukovic, leikmann TuS N-Lübbecke, um að spila með Berlínarliðinu frá og með tímabilinu 2015-2016.

Vukovic er fjölhæf skytta og öflugur varnarmaður og ljóst að hann verður mjög góður liðsstyrkur fyrir Berlínarrefina.

„Hann fékk nokkur tilboð úr þýsku deildinni og frá toppliðum annars staðar í heiminum en Füchse Berlín heillaði mest,“ sagði talsmaður Vukovic, og Króatinn bætti sjálfur við:

„Eftir að hafa rætt mikið við Bob Hanning [framkvæmdastjóra] og Dag Sigurðsson [þjálfara] fannst mér ljóst að hérna ætti ég heima, og ekki bara á grundvelli íþrótta. Konan mín, dóttir mín og ég erum ánægð með það sem Berlín hefur að bjóða í handbolta og einkalífinu,“ sagði Vukovic, sem er 30 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert