Ernir Hrafn úr leik um skeið

Ernir Hrafn Arnarson, í uppstökki í leik með Emsdetten á …
Ernir Hrafn Arnarson, í uppstökki í leik með Emsdetten á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd/tvemsdetten.com

Handknattleiksmaðurinn Ernir Hrafn Arnarson fór í speglun á hné fyrir mánuði síðan og verður frá keppni næsta mánuðinn til viðbótar með liði sínu TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni í handknattleik. 

Um er að ræða meiðsli í hægra hné, því sama og Ernir Hrafn sleit krossband á fyrir nokkrum árum. Eftir speglunina gerðu læknar ráð fyrir að hann yrði tvo mánuði frá keppni. 

Ernir Hrafn er nú að hefja fjórða keppnistímabilið með TV Emsdetten. Hann var útnefndur fyrirliði liðsins í sumar og því mun ábyrgð hans enn aukast þegar hann getur farið að leika með liðinu á nýjan leik. Ernir Hrafn er einn fjögurra Íslendinga í herbúðum Emsdetten á þessari leiktíð. Hinir eru Anton Rúnarsson, Ólafur Bjarki Ragnarsson og Oddur Gretarsson. 

Ernir Hrafn hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið í handknattleik og tók m.a. þátt í heimsmeistaramótinu á Spáni í janúar 2013 og æfingaleikjum við Portúgal í vor sem leið. 

Keppni í deildinni hófst um síðustu helgi og þá gerði Emsdetten jafntefli við Hamm. Á  morgun mætir Emsdetten liði SV Henstedt-Ulzburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert