Emsdetten vann en Eisenach tapaði

Anton Rúnarsson í búningi Nordsjælland sem hann lék með á …
Anton Rúnarsson í búningi Nordsjælland sem hann lék með á síðasta vetri. Hann hefur farið vel af stað með TV Emsdetten í þýsku 2. deildinni. Ljósmynd/nordsjaelland-haandbold.dk

Anton Rúnarsson var markahæstur hjá TV Emsdetten í dag þegar liðið vann SV Henstedt-Ulzburg, 28:26 á útivelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Á sama tíma tapaði annað Íslendingalið, Eisenach, á heimavelli fyrir Nordhorn, 28:25.

Anton skoraði sjö mörk, þar af eitt úr vítakasti, og var í tvígang vísað af leikvelli í tvær mínútur í hvort skipti. Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk og brást bogalistinn einu sinni úr vítakasti. Emsdetten var tveimur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 16:14. Liðið hefur þrjú stig að loknum tveimur leikjum.

Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Hrafn Arnarson léku ekki með Emsdetten vegna meiðsla.

Hannes Jón Jónsson var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Eisenach með sex mörk í fyrsta tapleik liðsins á keppnistímabilinu þegar Nordhorn kom í heimsókn. Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark fyrir Eisenach sem var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Eisenach.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert