Patrekur samdi til ársins 2020

Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson AFP

Patrekur Jóhannesson þjálfari austurríska landsliðsins í handknattleik hefur skrifað undir nýjan samning við austurríska handknattleikssambandið.

Samningurinn sem Patrekur hefur skrifað undir gildir til ársins 2020 en hann tók við þjálfun austurríska liðsins árið 2011 og hefur gert afar góða hluti með liðið. Austurríkismenn tryggðu sér sæti í úrslitakeppni HM sem fram fer í Katar á næsta ári og voru með í úrslitakeppni Evrópumótsins í Danmörku á síðasta ári þar sem þeir enduðu í 11. sæti.

„Ég þurfti ekki langan tíma til að hugsa mig hvort ég myndi samþykkja tilboðið frá austurríska sambandinu því ég hef verið mjög ánægður og hef starfað í góðu umhverfi. Samningurinn er til fimm ára og það sýnir það gagnkvæma traust sem ríkir á milli mín og stjórn sambandsins. Ef báðir aðilar eru ánægðir er auðvelt að halda áfram í starfinu. Við höfum náð góðum árangri saman og ég er bæði stoltur og ánægður að halda áfram sem þjálfari austurríska landsliðsins,“ segir Patrekur á vef austurríska handknattleikssambandsins.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert