Stjarnan og Fram byrja vel

Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Fram í dag.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Fram í dag. mbl.is/Kristinn

Fram og Stjarnan unnu örugga sigra á andstæðingum sínum í dag í fyrstu umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik.

Fram mætti Selfossi í Safamýrinni í fyrsta leik sínum undir stjórn Stefáns Arnarsonar, og fór með 12 marka sigur af hólmi, 33:21. Staðan var 18:10 í hálfleik. Sigurbjörg Jóhannsdóttir fór á kostum og skoraði 10 mörk fyrir Fram en aðalstjarna Selfyssinga, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, skoraði heil 14 mörk fyrir gestina eða 2/3 af mörkum þeirra.

Stjarnan, sem nú er með Ragnar Hermannsson sem aðalþjálfara, hélt Fylki í fimm mörkum í fyrri hálfleik og var staðan 11:5 að honum loknum. Garðbæingar unnu svo að lokum átta marka sigur, 26:18.

Sólveig Lára Kjærnested skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna en Kristjana Steinarsdóttir var markahæst hjá Fylki með 5 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert