Fyrsti sigur FH-inga kom í Safamýri

Stefán Baldvin Stefánsson, hornamaður Fram.
Stefán Baldvin Stefánsson, hornamaður Fram. mbl.is/Ómar Óskarsson

FH-ingar unnu sinn fyrsta leik í Olís-deild karla í handknattleik þegar liðið hafði betur gegn Fram í Safamýri, 28:24, í 2. umferð deildarinnar í kvöld. Liðið hefur nú þrjú stig en Framarar hafa tvö.

FH-ingar byrjuðu vel á meðan ekkert gekk í sóknarleik heimamanna. Þeir misstu boltann í gríð og erg og ef ekki hefði verið fyrir Kristófer Fannar Guðmundsson í marki þeirra hefði staðan verið enn verri, en Kristófer varði tíu skot í fyrri hálfleik.

Framarar unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn eftir að hafa einungis skorað tvö mörk fyrstu ellefu mínúturnar. Jafnræði var með liðunum seinni hluta hálfleiksins en FH-ingar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörkin fyrir hlé og höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 13:10.

Framarar komu mun einbeittari til leiks eftir hlé, unnu muninn jafnt og þétt upp og komust yfir eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik sem virtist koma FH-ingum í opna skjöldu. Leikurinn var í járnum upp frá því þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna.

FH-ingar sigldu hins vegar fram úr þegar leið á og náði þriggja marka forystu á ný á meðan það fór að fjara undan leik Framara. Þeir reyndu þó hvað þeir gátu undir lokin en allt kom fyrir ekki, lokatölur 28:24 fyrir FH-inga.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar  verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Fram 24:28 FH opna loka
60. mín. Ásbjörn Friðriksson (FH) skorar úr víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert