Botnliðið vann toppliðið á útivelli

Leó Snær Pétursson, skoraði sigurmark HK þegar tæp mínúta var …
Leó Snær Pétursson, skoraði sigurmark HK þegar tæp mínúta var eftir í Mosó. mbl.is/Ómar Óskarsson

Botnlið HK kom á óvart í Olís-deild karla í kvöld og skellti toppliði Aftureldingar í Mosfellsbænum 25:22. HK hafði frumkvæðið lengst af í leiknum og var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. 

Var þetta aðeins annar sigur HK í átta leikjum en á hinn bóginn var um fyrsta tap Aftureldingar að ræða í vetur. 

Lárus Helgi Ólafsson lék virkilega vel í marki HK og vörnin fyrir framan hann var sterk. Fyrir vikið fékk HK talsvert af hraðaupphlaupum og leikmenn Aftureldingar misstu boltann ítrekað í leiknum.

HK var fjórum mörkum yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Þá saxaði Afturelding á forskotið og einu marki munaði þegar mínúta var eftir. Þá skoraði hornamaðurinn lukni Leó Snær Pétursson 24. mark HK og tryggði sigurinn. 

Mörk Aftureldingar: Jóhann Gunnar Einarsson 5, Pétur  Júníusson 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Jóhann Jóhannsson 3, Böðvar Páll Ásgeirsson 2, Örn Ingi Bjarkason 2, Elvar Ásgeirsson 1, Gunnar M. Þórsson 1, Kristinn Bjarkason 1.

Mörk HK: Garðar Svansson 7, Daði Laxdal 4, Tryggvi Þór Tryggvason 4, Leó Snær Pétursson 3, Þorgrímur Smári Ólafsson 3, Andri Þór Helgason 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert