Gylfi úr leik næsta mánuðinn

Handknattleiksmaðurinn Gylfi Gylfason, sem tók fram skóna á dögunum og gekk til liðs við Fram í vikunni, tognaði í læri á æfingu liðsins í gær. Þar af leiðandi er ekki reiknað með að hann leiki með Fram-liðinu næsta mánuðinn. 

Nú er staðan sú hjá Safamýrarliðinu að allir fjórir örvhentir leikmenn liðsins eru fjarverandi vegna meiðsla. Auk Gylfa er um að ræða Elías Bóasson, Ólaf Ægi Ólafsson og Þorra Björn Gunnarsson. Vonir standa til að Elías geti verið með í næsta leik Fram-liðsins eftir hálfan mánuð en þá mætir Fram Íslandsmeisturum ÍBV í Eyjum í níundu umferð Olís-deildarinnar.  Elías meiddist illa á ökkla eftir um hálfa mínútu í fyrsta leik Fram-liðsins í Olís-deildinni gegn Haukum 18. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert