Styttist í að Ólafur leiki á ný

Ólafur Gústafsson glaður í bragði eftir sigur Flensburg í Meistaradeildinni …
Ólafur Gústafsson glaður í bragði eftir sigur Flensburg í Meistaradeildinni í vor. Hann hefur lítið leikið með Aalborg Håndbold á þessu keppnistímabilabili vegna þrálátra meiðsla í hnjám. mbl.is/iben

Ólafur Gústafsson, handknattleiksmaður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Aalborg Håndbold, vonast til þess að vera kominn á fulla ferð fyrri hluta næsta mánaðar. Ólafur lék með liðinu í tveimur fyrstu leikjunum í dönsku úrvalsdeildinni í haust en hefur verið frá keppni síðan vegna meiðsla í hnjám.

Ólafi hefur gengið illa að fá bóta meina sinna og m.a. oftar en einu sinni verið sprautaður í bæði hné. „Sjúkraþjálfari okkar vonast til að ég geti leikið með liðinu eftir landsleikjahléið í nóvember," sagði Ólafur við mbl.is en hann gekk til liðs við danska liðið í sumar eftir nærri tveggja ára veru hjá Flensburg í Þýskalandi. Ólafur varð Evrópumeistari með Flensburg í vor. 

Aalborg Håndbold situr um þessar mundir í 5. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 11 stig að loknum níu leikjum. KIF Kolding Köbenhavn, sem Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari stýrir, er efst með 17 stig. Þá er Álaborgarliðið komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Aalborg Håndbold er einnig í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu. Ólafur er ekki eini leikmaður liðsins sem hefur verið á sjúkralista þess síðustu vikur. 

Heil umferð fer fram í dönsku úrvalsdeildinni um helgina. Að umferðinni lokinni verður gert hlé á keppni til 7. nóvember vegna leikja í undankeppni Evrópumóts landsliða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert