Arnór markahæstur í sætum sigri - Ernir skoraði 9

Arnór Þór Gunnarsson skoraði 7 mörk í kvöld.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði 7 mörk í kvöld. Ljósmynd/Hilmar Þór

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur hjá Bergischer með 7 mörk þegar liðið vann eins marks sigur á Lemgo, 31:30, í þýsku 1. deildinni í handknatleik í kvöld. Viktor Szilágyi, lærisveinn Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu, skoraði sigurmarkið örfáum sekúndum fyrir leikslok.

Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot í marki Bergischer samkvæmt heimasíðu deildarinnar. Bergischer komst með sigrinum í 6. sæti og er með 11 stig eftir 10 leiki.

Sigurbergur Sveinsson og félagar í Erlangen unnu þriggja marka sigur á Bürgdorf, 32:29, og skoraði Sigurbergur eitt mark. Ólafur Guðmundsson var ekki á meðal markaskorara Bürgdorf og Rúnar Kárason ekki með.

Ernir með 9 í markaleik

Í 2. deild var Ernir Hrafn Arnarson sjóðheitur fyrir Emsdetten og skoraði 9 mörk í sigri á Dormagen, 43:37. Anton Rúnarsson og Oddur Gretarsson voru ekki á meðal markaskorara liðsins, og Ólafur Bjarki Ragnarsson er frá keppni vegna meiðsla.

Fannar Friðgeirsson skoraði 6 mörk fyrir Grosswallstadt sem vann Hamm, 31:27, og var einn af þremur markahæstu mönnum liðsins.

Hannes Jón Jónsson og Bjarki Már Elísson voru svo markahæstir hjá Eisenach með fimm mörk hvor þegar liðið vann Hüttenberg með 10 marka mun, 31:21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert