Bjarni: Kjánaleg hugsun

„Ef allt hefði verið eðlilegt þá hefðum við verið svona tíu mörkum yfir í hálfleik. Mér fannst við vera værukærir á köflum í fyrri hálfleik og við yfirspiluðum þá. Sex marka forysta gaf ekki rétta mynd af fyrri hálfleiknum. Það var klaufaskapur hjá okkur að gera ekki út um leikinn í hálfleik fannst mér,“ sagði Bjarni Fritzon þjálfari ÍR-inga eftir sigur þeirra á Akureyri 32:28.

Varamarkvörður Bjarki Símonarson kom í markið og gerði ÍR-ingum erfitt fyrir en hann varði 10 skot í síðari hálfliek.

„Bjarki kom í markið og varði allt. Hann er flottur markvörður og strákarnir þekkja hann ekki og kannski vanmátu þeir ðeins en við náðum að klára þetta og það er það eina sem skiptir máli,“ sagði Bjarni.

Björgvin Hólmgeirsson fór enn og aftur á kostum í liði ÍR og skoraði fjórtán mörk.

„Við erum að spila hrikalega vel sem lið og erum að láta boltann ganga. Hann er að fá góðar opnanir og góð færi, það er líka búið að gefa honum punktinn og það er að hjálpa til. Boltinn var að flæða vel í dag og ég var virkilega ánægður með það,“ sagði Bjarni sem er ánægður með liðsheildina.

„Við erum að bæta okkur sem liðsheild. Það kom upp umræða um að það væri hægt að taka Björgvin úr umferð og að það myndi eitthvað stoppa okkur, Akureyri byrjaði á því í fyrri hálfleik og þeir áttu ekki breik. Það er kjánaleg hugsun, finnst mér,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert