Marktækifærin illa nýtt að mati Patreks

Patrekur Jóhannesson hefur mátt svekkja sig yfir mörgum illa nýttum …
Patrekur Jóhannesson hefur mátt svekkja sig yfir mörgum illa nýttum færum í upphafi tímabils. Morgunblaðið/Eva Björk

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við mbl.is að leikmenn liðsins þyrftu að nýta marktækifærin sín betur til þess að geta unnið jafna leiki eins og gegn ÍBV í dag. Eyjamenn sigruðu 26:23 í 8. umferð Olís-deildar karla í handknattleik á Ásvöllum. 

„Það hefur fylgt okkur svolítið í þessum leikjum og gerði það í dag fyrir utan þá staðreynd að við nýttum vítin ágætlega. Við höfum verð með mjög lélega nýtingu maður á móti manni í vetur og í dag fengum við tækifærin til að vinna leikinn. Það er svekkjandi því það hefði verið gott að vinna leik eins og þennan þarf sem leikur okkar í byrjun var út úr korti,“ sagði Patrekur við mbl.is og vísar til þess að ÍBV komst í 13:3 en þá snérist dæmið við og Haukar jöfnuðu 16:16 hinu megin við hálfleikinn. Patrekur sagði ÍBV-liðið ekki hafa gert neitt til þess að koma Haukum á óvart. 

„Það er kannski slæmt fyrir okkur að geta ekki gripið í þá afsökun en ÍBV spilaði bara eins og liðið hefur verið að gera. Bæði liðin áttu skelfilega kafla og ef ég hugsa bara um mitt lið þá er það áhyggjuefni. Markvörðurinn okkar ungi, Grét­ar Ari Guðjóns­son, var ljósi punkturinn í okkar leik í dag. Menn þurfa að vera sterkir andlega inni á vellinum. Einar Andri þjálfari Aftureldingar orðaði þetta ágætlega þegar hann sagði sína menn hafa verið andlega fjarverandi. Við vorum það alla vega fyrstu tuttugu mínúturnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert