Grótta og Víkingur á sigurbraut

Gunnar Andrésson þjálfar Gróttu sem er á toppi 1. deildar.
Gunnar Andrésson þjálfar Gróttu sem er á toppi 1. deildar. Ljósmynd/Grottasport.is

Grótta og Víkingur héldu áfram sigurgöngu sinni í 1. deild karla í handknattleik í kvöld og halda sínu striki í tveimur efstu sætunum. Grótta er með fullt hús áfram, 18 stig eftir 9 leiki og Víkingur er með 16 stig eftir 9 leik í öðru sætinu.

Síðan koma Fjölnir með 12 stig, Hamrarnir 12, Selfoss 11, KR 7, ÍH 4, Mílan 3 og Þróttur 1 stig. Selfyssingar eiga leik til góða á Gróttu, Víking og Fjölni en Víkingur og Selfoss mætast í þýðingarmiklum leik í Víkinni á sunnudagskvöldið.

Grótta burstaði Þrótt, 39:21 í Laugardalshöllinni eftir að staðan var 20:11 í hálfleik. Viggó Kristjánsson skoraði 12 mörk fyrir Gróttu og Kristján Þór Karlsson 6 en Kristmann Freyr Dagsson gerði 6 mörk fyrir Þróttara.

Víkingur vann KR, 23:19, í KR-heimilinu og þurfti að hafa talsvert fyrir því en staðan var 11:11 í hálfleik. Jóhann Reynir Gunnlaugsson skoraði 6 mörk fyrir Víking og Jón Hjálmarsson 4 en Finnur Jónsson skoraði 8 mörk fyrir KR-inga.

Hamrarnir unnu stórsigur á Mílunni, 30:17, á Akureyri en staðan var þó aðeins 12:10 í hálfleik. Jón Heiðar Sigurðsson skoraði 8 mörk fyrir Hamrana og Patrekur Stefánsson 5 en Magnús Már Magnússon skoraði mest fyrir Míluna, 4 mörk.

Loks vann Fjölnir sigur á ÍH í Kaplakrika, 28:23, eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 13:9. Bjarki Lárusson skoraði 9 mörk fyrir Fjölni og Brynjar Loftsson 6 en Guðni Guðmundsson og Óliver Jóhannsson gerðu 5 mörk hvor fyrir ÍH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert