Grótta fékk á sig fimm í fyrri hálfleik

Lovísa Thompson skoraði fimm mörk fyrir Gróttu í dag.
Lovísa Thompson skoraði fimm mörk fyrir Gróttu í dag. mbl.is/Ómar

Gróttukonur áttu ekki í vandræðum með að leggja KA/Þór að velli á Seltjarnarnesi í dag, unnu 32:21, og jöfnuðu þar með Fram að stigum á toppi deildarinnar. Fram á leik til góða gegn FH á morgun.

Grótta náði ellefu marka forskoti sínu strax í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 16:5. Nær allir útileikmenn liðsins voru á meðal markaskorara en Karólína Bæhrenz Lárudóttir var markahæst með 9 mörk og Lovísa Thompson skoraði 5. Hjá KA/Þór var Martha Hermannsdóttir markahæst með 7 mörk.

Selfoss vann í Austurbergi

ÍR og Selfoss áttust við í Austurbergi og þar unnu Selfyssingar sex marka sigur, 28:22, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 17:9.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, sem var valin í landsliðið á dögunum, var markahæst hjá Selfossi með 7 mörk og Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 6. Hjá ÍR var Karen Tinna Demian markahæst með 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert