Duglegir strákar númer eitt, tvö og þrjú

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram. Ómar Óskarsson

„Þetta er frábær tilfinning og ótrúlega gott að vinna. Við erum að uppskera eftir frábæra frammistöðu í dag. Við vorum að spila heilt yfir vel bæði varnarlega og sóknarlega. Ég var ánægður með mína stráka,“ sagði Guðlaugur Arnarsson þjálfari Framara eftir að liðið sigraði topplið Aftureldingar 27:25 í Mosfellsbæ í Olís-deild karla í handknattleik.

Guðlaugur telur að Framarar séu á réttri leið.

„Við erum á réttri leið. Við erum að ná að halda haus í 60 mínútur og ætla okkur ekki að gera of mikið. Við viljum gera einfalda hluti og gera þá eins vel og við getum. Vonandi erum við á réttri leið,“ sagði Guðlaugur sem lagði upp með fyrir leikinn að halda sama varnarleik og var hjá liðinu í sigurleiknum gegn ÍBV í síðustu umferð.

„Við lögðum upp með því að halda varnarleiknum sem við vorum að ná upp gegn ÍBV. Við vorum að spila vel þar og þá fer Kristófer að verja. Við vildum líka slípa sóknarleikinn og láta vera flæði á boltanum og það gekk þokkalega í dag,“ sagði Guðlaugur.

Framarar hafa nú unnið tvo leiki í röð og virðast komnir á skrið. Lykillinn á bakvið sigrana er að mati Guðlaugs dugnaður leikmanna.

„Duglegir strákar, það er númer eitt, tvö og þrjú. Þeir hafa trú á sjálfum sér og því sem við erum að gera. Þeir eru vinnusamir. Eftir þá leiki sem við höfum tapað illa voru menn ótrúlega vinnusamir og mættir á æfingu daginn eftir að vinna í sínum málum,“ sagði Guðlaugur.

Fram mætir HK í næstu umferð í svakalegum botnbaráttuslag.

„Það er fjögurra stiga leikur. Við eigum eftir að mæta þessum liðum sem eru í kringum okkur fyrir jól. Við þurfum að halda áfram á þessari braut og safna stigum. Það verður svakalegur leikur í Safamýrinni í næstu viku og ég treysti á fullt hús.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert