„Fagnaði aðeins framan í hann“

Það var mikil barátta í þessum leik og ætlaði allt að sjóða upp úr held ég bara. Þetta var mjög góður leikur hjá okkur,“ sagði stórskyttan Björgvin Hólmgeirsson í liði ÍR í samtali við mbl.is eftir tveggja marka sigur liðsins á FH, 29:27, í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

FH-ingar virtust pirraðir í leiknum og Björgvini fannst það ekki skrítið. „Það er erfitt að vera alltaf að elta svo eðlilega enda mikilvæg stig undir. Þetta var annar leikurinn á móti þeim og annar sigurinn svo nú höfum við innbyrðis forskot á þá sem er fínt.“

Björgvin fékk einu brottvísun ÍR í leiknum eftir viðskipti við FH-inginn Ísak Rafnsson, en brottvísunin kom hins vegar eftir að Björgvin hafði skorað.

„ Hann var búinn að hamra tvisvar í andlitið á mér og ég fór á hann og skoraði og fagnaði aðeins framan í hann. Það verður að leyfa sér smá innlifun en samkvæmt reglunum eru þetta tvær mínútur og því heimskulegt af mér,“ sagði Björgvin, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert