Stjarnan skellti Haukum

Þórir Ólafsson er spilandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar.
Þórir Ólafsson er spilandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Ómar

Stjarnan vann Hauka með fjögurra marka mun, 29:25, í viðureign liðanna í Olís-deild karla í handknattleik í TM höllinni í kvöld. Þar með komst Stjarnan upp fyrir ÍBV í 7. sæti deildarinnar með 10 stig að loknum 13 leikjum. Haukar eru í sætinu fyrir ofan með 12 stig. 

ÍBV á reyndar leik til góða á Stjörnuna gegn HK í Digranesi á laugardaginn. 

Stjarnan hafði yfirhöndina frá upphafi til enda leiksins við Hauka í kvöld. M.a. fengu Stjörnumenn fljúgandi viðbragð og komust í 7:1. Segja má að Haukum hafi aldrei tekist að minnka þann mun sem nokkru nam en nokkrum sinnum tókst Hafnarfjarðarliðinu að minnka muninn í þrjú mörk. 

Miklu munaði um stórleik Björns Inga Friðþjófssonar í marki Stjörnunnar á sama tíma og markverðir Hauka náðu sér ekki á strik. Björn Ingi varði 20 skot, þar af tvö vítaköst. 

Þórir Ólafsson var markahæstur hjá Stjörnunni með níu mörk, þar af skoraði hann átta mörk í fyrri hálfleik. Andri Hjartar Grétarsson skoraði átta mörk og Egill Magnússon sex.

Adam Haukur Baumruk skoraði níu mörk fyrir Hauka og Árni Steinn Steinþórsson skoraði átta sinnum. Tjörvi Þorgeirsson skoraði í þrígang. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert