Hluti af kynslóðaskiptum hjá landsliðinu

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. mbl.is/Ómar

„Þetta er hluti af endurnýjun eða kynslóðaskiptum,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik um val sitt á 20 manna æfingahópi fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Katar í janúar. Athygli vekur að tveir lítt reyndir leikmenn, Guðmundur Árni Ólafsson og Tandri Már Konráðsson,  voru valdir í hópinn en Þórir Ólafsson ekki, svo dæmi sé tekið.

„Þórir er í 28 manna hópnum og get þess vegna kallað í hann ef þörf reynist,“ sagði Aron og bætti því við að Guðmundur Árni hafi leikið afar vel í hægra horninu með danska úrvalsdeildarliðinu Mors-Thy á keppnistímabilinu.  Auk Guðmundar Árna  valdi Arnór nafna sinn Arnór Þór Gunnarsson, hornamann Bergischer í Þýskalandi í æfingahópinn.

Einnig vekur athygli að markahæsti leikmaður Olís-deildar karla, Björgvin Þór Hólmgeirsson, er ekki í æfingahópnum sem valinn var í dag. Hann er hinsvegar í stóra hópnum fyrir mótið og eins og Þórir og fleiri getur hann verið kallaður inn ef þörf verður á, að mati Arons.

„Síðan er skarð fyrir skildi að Ólafur Gústafsson getur ekki verið með okkur vegna meiðsla. Ég vildi gjarnan hafa hann með okkur enda sé ég Ólaf fyrir mér sem framtíðarmann, ekki síst í varnarleiknum þar sem hann getur fengið stórt hlutverk. Í hans stað ætlar Sverre Jakobsson að gefa kost á sér og fara með okkur í gegnum eitt stórmótið enn sem burðarás í varnarleiknum. Ég vonaði  fram á síðustu stundu að Ólafur yrði klár í slaginn en því miður verður hann ekki með að þessu sinni.“

Aron segir spennandi að sjá hvernig Tandri Már muni falla inn í hópinn. „Tandri er hávaxinn og getur leikið bæði sem bakvörður og miðjumaður í vörn. Hann er fljótur að bera upp boltann í hraðaupphlaupum og er auk þess góð skytta. Tandri er vonandi framtíðarmaður,“ segir Aron.

Ólafur Andrés Guðmundsson, leikmaður Hannover-Burgdorf, sem tekið hefur þátt í 27 af þeim 36 landsleikjum sem fram hafa farið síðan Aron tók við þjálfun þess, er heldur ekki í 20 manna hópnum. Ólafur hefur verið mikið frá síðustu vikur vegna meiðsla. Hann er hinsvegar í 28 manna hópnum og getur þess vegna verið kallaður inn í æfingahópinn fyrirvaralítið.

„Ólafur Bjarki Ragnarsson er einnig annar leikmaður sem við höfum vonast eftir að væri inn í landsliðið. Hann er hinsvegar rétt að komast af stað eftir að hafa verið meiddur allt þetta ár og er heldur ekki í 28 manna hópnum," segir  Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. 

Guðmundur Árni Ólafsson er í æfingahópnum fyrir HM.
Guðmundur Árni Ólafsson er í æfingahópnum fyrir HM. Ljósmynd/mors-thy.dk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert