Stórleikur Róberts í naumum sigri

Róbert Gunnarsson t.h. í leik með París SG.
Róbert Gunnarsson t.h. í leik með París SG. AFP

Róbert Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik með stjörnum prýddu liði París SG í kvöld þegar það vann nauman útisigur á Nantes, 27:26, í frönsku 1. deildinni í handknattleik.

Róbert var markahæsti leikmaður PSG með 7 mörk, og þar af gerði hann fimm í fyrri hálfleiknum. Xavier Barachet og Mikkel Hansen komu næstir með 6 mörk hvor. Róbert jafnaði metin í 26:26 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og það var síðan Jeffrey M'tima sem skorað sigurmarkið 40 sekúndum fyrir leikslok. Thierry Omeyer sá svo um að innsigla sigurinn með því að verja í síðustu sókn heimamanna. Valero Rivera var markahæstur hjá Nantes með 8 mörk.

PSG er þá í öðru sæti deildarinnar eftir 14 umferðir með 22 stig. Montpellier er efst með 24 stig en Arnór Atlason og félagar í Saint Raphael eru með 20 stig í þriðja sætinu.

Hin Íslendingaliðin eru í harðri fallbaráttu. Ásgeir Örn Hallgrímsson og félagar í Nimes eru með 9 stig í 12. sæti og Snorri Steinn Guðjónsson og samherjar eru með 8 stig í þrettánda og næstneðsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert