Þurfa að halda liðum undir 23 mörkum

Davíð Svansson.
Davíð Svansson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Davíð Svansson varði 18 skot í kvöld þegar Afturelding vann sætan eins marks útisigur á Haukum 23:22 í Olís-deildinni í handbolta. 

„Þetta var ótrúlegt. Ég veit ekki hvað það var sem réði úrslitum fyrir okkur. Þetta datt með okkur undir lokin og við vorum til að mynda heppnir að fá þetta frákast í síðustu sókninni,“ sagði Davíð og vísar þar til þess að Afturelding fékk tvær tilraunir í síðustu sókn sinni í leiknum. Morkunas markvörður Hauka varði skot en Ágúst Birgisson náði frákastinu á línunni og skoraði sigurmarkið tíu sekúndum fyrir leikslok. 

„Mér fannst þetta líta mjög vel út til að byrja með. Við komumst í 4:2 og byrjuðum vel. Þeir komust þá aðeins upp á lagið og það hægðist á okkar leik. Við leyfðum þeim að lemja okkur og létum þá fara í taugarnar á okkur. Lengst af varð þetta leiðinlegur eltingarleikur fyrir okkur og erfiður leikur. Þeir voru oft einhverjum mörkum á undan. Vörnin var fín hjá okkur og við höfum talað um að ef við höldum andstæðingunum undir 23 mörkum þá vinnum við. Það sýndi sig í dag. Við fengum á okkur 22 mörk og það var nóg til þess að vinna. Ég veit að Haukarnir hafa tapað leikjum undanfarið og eru brothættir en mér finnst engu að síður alltaf erfitt að koma hingað. Haukar eru með hörkulið og með flinka leikmenn,“ sagði Davíð við mbl.is að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert