Sami grunnur og áður

Guðmundur Árni Ólafsson er í landsliðshópnum.
Guðmundur Árni Ólafsson er í landsliðshópnum. Ljósmynd/Bjerringbro-Silkeborg

Það sem helst kom á óvart í vali Arons Kristjánssonar, landsliðsþjálfara í handknattleik karla, á 20 manna æfingahópi fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Katar í janúar, var að hann skipti út Selfyssingum.

Þórir Ólafsson, sem hefur tekið þátt í fjórum af síðustu fimm stórmótum landsliðsins, hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans að þessu sinni. Guðmundur Árni Ólafsson, sem á að baki einn landsleik gegn Portúgal í júní á þessu ári, var kallaður inn í hans stað.

Aron landsliðsþjálfari sagði við Morgunblaðið í gær að þessi breyting endurspeglaði að einhverju leyti þau kynslóðaskipti sem væru framundan hjá landsliðinu. Guðmundur Árni er 11 árum yngri en Þórir og hefur leikið í Danmörku í tæp fjögur ár en var þar áður með Haukum eftir að hafa stigið sín fyrstu skref með liði Selfoss.

Þótt Guðmundur Árni hafi verið valinn í æfingahópinn er ósennilegt að hann verði í endanlegum hóp sem tekur þátt í mótinu í Katar. Telja verður líklegt að Aron landsliðsþjálfari velji Arnór Þór Gunnarsson í hornamannsstöðuna. Hann er leikreyndari auk þess sem Ásgeir Örn Hallgrímsson getur alltaf leyst Arnór af hólmi.

Sjá meira um val Arons á landsliðinu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert