Bjarki Már heldur uppteknum hætti

Frábær frammistaða Bjarka Más Elíssonar með Eiseanch hefur ekki nægt …
Frábær frammistaða Bjarka Más Elíssonar með Eiseanch hefur ekki nægt honum til þess að vinna sér sæti í æfingahóp landsliðsins fyrir HM. mbl.is/Ómar

Bjarki Már Elísson heldur áfram að hrella markverðina í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Hann skoraði níu mörk í gærkvöldi þegar lið hans, Eisenach, vann Saarlouis, 39:30, á heimavelli. Eisenach komst þar með upp í 7. sæti deildarinnar með 23 stig að loknum 19 leikjum og er tíu stigum á eftir Leipzig sem trónir á toppnum.

Bjarki Már hefur þar með skorað 75 mörk í síðustu sjö leikjum liðsins en þetta var fyrsti leikurinn af þessum sjö þar sem hann skorar ekki yfir tíu mörk. Aðeins eitt af mörkum Bjarka Más í gær skoraði hann af vítapunktinum.

Hannes Jón Jónsson skoraði eitt mark fyrir Eisenach sem var marki yfir að loknum fyrri  hálfleik, 20:19.

Fannar Þór Friðgeirsson skoraði fjögur mörk fyrir Grosswallstadt þegar liðið vann Dormagen á heimavelli, 33:29.  Grosswallstadt færðist upp í 6. sæti með þessum sigri. Liðið hefur nú 24 stig.

Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í EHV Aue fögnuðu einnig í gærkvöldi. Þeir unnu stóran sigur á Henstedt, 34:20, á útivelli. Aue situr í 10. sæti af 20 liðum deildarinnar. 

Hörður Fannar Sigþórsson skoraði tvö mörk fyrir Aue og Bjarki Már Gunnarsson eitt. Sigtryggur Rúnarsson lék með liðinu en náði ekki að skora. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki liðsins að vanda. Árni Þór Sigtryggsson er hinsvegar fjarri góðu gamni eftir að hafa handarbrotnað á dögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert