Einn erfiðasti andstæðingurinn

Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari og leikmenn hans fá um margt …
Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari og leikmenn hans fá um margt að hugsa fyrir leikina við Svartfellinga í undankeppni HM í júní. Morgunblaðið/Golli

„Við gátum varla dregist gegn erfiðari andstæðingi,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við mbl.is eftir að íslenska landsliðið dróst gegn Svartfjallalandi í umspilsleikjum fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik. Leikirnir fara fram í júní á næsta ári og íslenska landsliðið síðari leikinn á heimavelli.

„Svartfellingar eru ríkjandi Evrópumeistarar og leika um bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í dag. Þar af leiðandi verður þetta erfitt verkefni fyrir okkur,“ segir Ágúst Þór og heldur áfram. „Þetta verða erfiðir leikir, ekki í síst þar sem Svartfellingar leika yfirleitt frábærlega á heimavelli. Það verður þar af leiðandi lykilatriði fyrir okkur að ná hagstæðum úrslitum í fyrri leiknum á útivelli svo við getum gert eitthvað á heimavelli.  En fyrirfram litið er ljóst að Svartfellingar eru sigurstranglegri.“

Svartfellingar hafa átt eitt sterkasta landslið heims árum saman auk þess sem flestir leikmenn liðsins koma frá sama félagsliðinu, Buducnost, sem er eitt besta félagslið Evrópu. „Það er mikil handboltahefð í Svartfjallalandi, ekki síst í kvennahandknattleiknum. Við verðum að búa okkur vel undir leikina undir erfiða leiki í júní.

Það er hinsvegar langt í leikin og erfitt að leggja dóm á þá. Það getur mikið gerst áður en að þeim kemur. Við verðum að vona að allir okkar leikmenn verði heilir heilsu og í toppæfingu áður en að þeim kemur. Undirbúningurinn verður að vera góður svo við getum freistað þess að koma á óvart,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.

Hverjir mætast?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert