„Fullkominn Hergeirsson“

Þórir Hergeirsson klappar fyrir sínu liði á Evrópumótinu.
Þórir Hergeirsson klappar fyrir sínu liði á Evrópumótinu. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari nýkrýndra Evrópumeistara Noregs í handknattleik, fær mikið lof í norskum fjölmiðlum fyrir stjórn sína á liðinu á EM í Króatíu og Ungverjalandi. 

Noregur tefldi nú fram reynsluminna liði en á árunum 2010 - 2012 þegar Þórir vann þrennuna með norska landsliðinu: EM, HM og Ólympíugull í London. Væntingarnar voru því ekki eins miklar en norskir fjölmiðlamenn sem lýst hafa skoðunum sínum eru nánast á einu máli um að Þórir hafi spilað afar vel úr sínum spilum. 

Á vef Verdens Gang segir til að mynda að Þórir hafi nálgast verkefnið nánast fullkomlega í grein sem ber yfirskriftina: „Fullkomni Hergeirsson.“ Sigurinn á EM skipi honum endanlega í hóp með bestu þjálfurum í handboltanum. 

Í greininni veltir höfundurinn því fyrir sér hvort ný þrenna sé í uppsiglingu hjá norska landsliðinu en HM fer fram að ári og sumarið 2016 eru Ólympíuleikarnir í Ríó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert