Aron ánægður með varnarleikinn

Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson mbl.is/Eva Björk

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, var nokkuð sáttur við varnarleikinn gegn Þjóðverjum í kvöld þar sem Ísland vann sigur 25:24 í vináttulandsleik í Laugardalshöll. Einnig sagði hann sóknarleikinn hafa verið skárri en í fyrri leiknum í gær. 

„Við höfum lagt mikla áherslu á varnarleikinn á þeim æfingum sem við höfum fengið. Ég er ánægður með að við náðum honum vel upp, þ.e. 6-0 vörninni. Margir komu inn á í vörnina og skiluðu sínu. Einnig var markvarslan fín í þremur hálfleikjum af fjórum. Í sókninni voru vissar framfarir frá leiknum í gær. Þá spiluðum við leikkerfin illa og fengum lítið út úr þeim. Nú fengum við meiri ógnun utan af velli. Sigurbergur kom með nokkur mikilvæg mörk fyrir utan og Arnór kom sterkur inn á miðjuna. Það var jákvætt og þá gerðum við færri tæknimistök í sókninni en í gær. Samt sem áður þá voru Þjóðverjarnir fljótir að refsa okkur í hvert skipti sem við vorum ekki nógu agaðir,“ sagði Aron þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum og næst á dagskrá er að æfa sóknarleikinn betur.

„Það er nokkuð ljóst að á æfingunni á morgun verður sóknarleikurinn æfður. Bæði yfirtala og undirtala. Við höfum ekkert æft fram að þessu sóknarleik þegar við erum manni færri. Í vikunni munum við væntanlega nota vestið á æfingum og sjá hvernig það kemur út,“ sagði Aron og á þar við þegar liðið er í þeirri stöðu að vera manni færri og tekur markvörðinn út af í sókninni og skiptir útileikmanni inn á. Aron minnti einnig á að talsvert væri eftir af undirbúningnum fyrir HM og hann vonaðist fyrst og fremst eftir því að allir leikmenn héldust heilir fram að mótinu. Auðveldara verði að spá í spilin að æfingamótinu í Danmörku loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert