Laufey skoraði 12 mörk fyrir Gróttu

Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoraði 12 mörk fyrir Gróttu.
Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoraði 12 mörk fyrir Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoraði 12 mörk þegar topplið Gróttu vann góðan útisigur á Haukum 27:25 í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld.

Karólína Bæhrenz Lárudóttir gerði 6 mörk fyrir Gróttu. Marija Gedroit var markahæst hjá Haukum með 6 mörk en Haukaliðið hefur verið á góðri siglingu undanfarið.

Stjarnan sótti tvö stig á Selfoss en úrslitin urðu 19:26. Nataly Sæunn Valencia skoraði 7 mörk fyrir Stjörnuna en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var með 6 fyrir Selfoss.

HK vann útisigur á botnliði KA/Þórs 31:26 á Akureyri. Emma Sardardóttir og Sigríður Hauksdóttir voru markahæstar hjá HK með 7 mörk hvor en Martha Hermannsdóttir var eins og oft áður markahæst hjá KA/Þór, í þetta skiptið með 9 mörk.

FH og ÍR gerðu jafntefli 17:17 í Kaplakrika en einnig var jafnt að loknum fyrri hálfleik 10:10. Rebekka Guðmundsdóttir og Ingibjörg Pálmadóttir skoruðu 4 mörk hvor fyrir FH en Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir var markahæst hjá ÍR með 6 mörk. Landsliðsmarkvörðurinn Dröfn Haraldsdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir ÍR í kvöld sem fagnaði sínu fyrsta stigi í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert