Frakkar burstuðu Slóvena

Thierry Omeyer er illviðráðanlegur í marki Frakka.
Thierry Omeyer er illviðráðanlegur í marki Frakka. AFP

Slóvenía og Frakkland áttust við í átta liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í handbolta í Katar. Frakkar sigruðu 32:23 og vory yfir 18:10 að loknum fyrri hálfleik. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Markvörðurinn sigursæli Thierry Omeyer sýndi enn einu sinni hvers hann er megnuður og varði hvað eftir annað þegar Frakkar byggðu upp forskot sitt í fyrri hálfleik. Fleiri af eldri leikmönnum Frakka áttu góðan leik og má þar nefna Daniel Narcisse virðist búinn að hrista af sér þau meiðsli sem héldu honum utan vallar í upphafi mótsins. Var hann markahæstur með 6 mörk en Luka Zvizej gerði einnig 6 mörk fyrir Slóveníu.

60. mín: Leiknum er lokið. Frakkar sigruðu 32:23 og komast örugglega áfram í undanúrslit. Þar mæta þeir annað hvort Spánverjum eða Dönum.

52. mín: Staðan er 27:20 fyrir Frakkland. Daniel Narcisse var að skora fyrir Frakka og nú eru möguleikar Slóvena úr sögunni. Þeim tókst að minnka muninn niður í fjögur mörk 24:20 en gerðu í framhaldinu of mörg tæknimistök í sókninni.

49. mín: Staðan er 24:19 fyrir Frakkland. Slóvenar voru tveimur leikmönnum fleiri í 90 sekúndur í stöðunni 18:24 en unnu þann kafla einungis 1:0.

45. mín: Staðan er 23:17 fyrir Frakkland. Slóvenar eru aðeins að naga niður forskotið en það er þó enn drjúgt. Enn langt í land fyrir Slóvena.

37. mín: Staðan er 21:13 fyrir Frakkland. Slóvenum hefur tekist að skora þrjú mörk í röð eftir að Frakkar náðu ellefa marka forskoti.

30. mín: Staðan er 18:10 fyrir Frakkland. Fyrri hálfleik er lokið. Frakkar hafa komið sér upp miklu forskoti og vandséð hvernig Slóvenar eiga að geta unnið það upp á 30 mínútum. Óvíst að nokkuð lið gæti unnið upp slíkt forskot Frakka í einum hálfleik. Thierry Omeyer hefur varið mjög vel í markinu fyrir aftan öfluga vörn Frakka. Gömul og góð formúla hjá Frökkunum sem skilað hefur þeim mörgum titlum.

20. mín: Staðan er 13:5 fyrir Frakkland. Þriðjungur búinn af leiknum og ólíklegt að Frakkar hleypi Slóvenum inn í þennan leik.

10. mín: Staðan er 6:1 fyrir Frakkland. Já Evrópu- og ólympíumeistararnir eru byrjaðir að beita sér af fullum krafti en þeir eru gjarnir á að vinna sig inn í stórmótin hægt og bítandi. Thierry Omeyer hefur nú þegar varið sex skot í markinu og aðeins fengið á sig eitt mark á fyrstu tíu mínútunum.

5. mín: Staðan er 3:1 fyrir Frakkland þó Slóvenar hafi skorað fyrsta markið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert