Verður besta lið Noregs gjaldþrota?

Nora Mörk er lykilmaður í liði Larvik og norska landsliðinu.
Nora Mörk er lykilmaður í liði Larvik og norska landsliðinu. AFP

Larvik, langbesta kvennaliðið í norskum handknattleik sem er með yfirburðastöðu í úrvalsdeildinni þar í landi, er illa statt fjárhagslega og ef allt fer á versta veg gæti félagið farið í gjaldþrot strax í febrúarmánuði og þar með þurft að draga sig úr keppni í öllum mótum.

Östlands-Posten skýrði frá þessu í kvöld og fjallaði um alvarlega stöðu félagsins sem er stórskuldugt og þarf að afla sér að minnsta kosti fimm milljóna norskra króna í snarhasti til að ná að komast fyrir horn í bili. Þetta kemur fram í bréfi sem félagið hefur sent frá sér sem hjálparbeiðni til stuðningsmanna og fyrirtækja í Larvik og nágrenni.

Sú upphæð samsvarar ríflega 86 milljónum íslenskra króna.

„Það fer ekki á milli mála að við höfum ekki staðið okkur nógu vel," segir formaður félagsins, Thor Edvard Mathisen, við Östlands-Posten og staðfesti að svo gæti farið að félagið gæti ekki lokið yfirstandandi keppnistímabili.

Félagið fékk fjórar milljónir norskra króna í lán frá sveitarfélaginu Larvik á síðasta ári til að bjarga málum eftir að tekjur skiluðu sér ekki samkvæmt áætlun.

Larvik er með yfirburðastöðu í norsku úrvalsdeildinni, hefur unnið alla 14 leiki sína á tímabilinu og er með fimm stiga forskot á næsta lið, Glassverket. Margar af bestu handknattleikskonum Noregs spila með Larvik.

Liðið hefur jafnframt unnið alla fjóra leiki sína í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og efst í sínum riðli ásamt Evrópumeisturum Györ frá Ungverjalandi en félögin eiga einmitt að mætast á sunnudaginn kemur í miklu uppgjöri í Györ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert