Grótta og Selfoss sigruðu

Matthías Örn Halldórsson skoraði mest fyrir Selfyssinga í kvöld.
Matthías Örn Halldórsson skoraði mest fyrir Selfyssinga í kvöld. Ljósmynd/Sunnlenska

Grótta er áfram á sigurbraut í 1. deild karla í handknattleik og vann í kvöld ÍH, 31:27, á Seltjarnarnesi. Selfyssingar styrktu stöðu sína í þriðja sætinu með því að sigra KR, 24:18, fyrir austan fjall.

Grótta er með 31 stig eftir 16 leiki en Víkingur er með 26 stig eftir 15 leiki og mætir Þrótturum annað kvöld. Selfyssingar eru síðan með 21 stig í þriðja sætinu en þar á eftir koma Fjölnir með 19 stig, KR með 16 og Hamrarnir með 15 stig.

Matthías Örn Halldórsson skoraði 5 mörk fyrir Selfyssinga í kvöld, Andri Már Sveinsson og Hörður Másson 4 hvor, en Guðjón Finnur Drengsson skoraði 7 mörk fyrir KR. Staðan í hálfleik var 12:10, Selfyssingum í hag.

Engin leikskýrsla hefur borist úr leik Gróttu og ÍH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert