„Eins svekkjandi og hægt er“

Guðmundur Hólmar Helgason stöðvaður af vörn FH í kvöld.
Guðmundur Hólmar Helgason stöðvaður af vörn FH í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, þurfti að sætta sig við tap í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í handbolta í Laugardalshöllinni í kvöld. Valur tapaði 40:44 fyrir FH eftir tvíframlengdan leik. 

Valsmenn virtust vera í afskaplega góðum málum þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Valur var þá yfir 30:26 en FH vann lokakaflann 6:2 og venjulegum leiktíma lauk því 32:32. Mbl.is spurði Óskar því hvort Valsmenn hafi ekki kastað frá sér sigrinum? „Jú við köstuðum þessu eiginlega frá okkur í venjulegum leiktíma en svona er bara boltinn. Svona lagað getur gerst og gerðist aftur í fyrri framlengingu. Í framhaldinu fór Ísak á kostum, markvarslan kemur hjá þeim og ekkert gengur hjá okkur. Svona er lífið. FH-ingar voru reyndar líflegir og fínir allan tímann. Mér fannst jákvætt hjá okkur og við áttum að klára dæmið þó okkur hafi ekki tekist að kalla fram það allra besta í okkar leik í dag,“ sagði Óskar.

Spurður um hvernig lokamínútur venjulegs leiktíma blöstu við honum sagði Óskar að örlað hafi á því að hans menn reyndu of mikið að verja forskotið. 

„Þá breyttu þeir aðeins vörninni hjá sér og við urðum svolítið „passívir“ í kollinum, í því að verja forskotið.  Það er lítið meira hægt að segja nema það að þetta er eins svekkjandi og hægt er. Við erum með forskot í venjulegum leiktíma og aftur í framlengingu en töpum.“

Jón Kristjánsson og Óskar Bjarni Óskarsson þjálfarar Vals.
Jón Kristjánsson og Óskar Bjarni Óskarsson þjálfarar Vals. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert