Pólskipti í Höllinni og ÍBV í úrslit

Íslandsmeistarar ÍBV tryggðu sér sæti í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla þegar þeir sneru heldur betur við blaðinu í leik sínum við fráfarandi bikarmeistara Hauka í Laugardalshöll í kvöld, lokatölur 23:21, eftir að Hauka voru með fjögurra marka forskot í hálfleik, 14:10, og náðu mest fimm marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 17:12.

„Þar sem hjartað slær" fékk að óma í leikslok í Höllinni þegar Eyjamenn sameinuðust í söng, þeim sem sameinaði þá í vor þegar þeir lögðu Hauka í fimm leikja rimmu um Íslandsmeistaratitilinn.

Það var aðeins á upphafsmínútum fyrri hálfleiks sem Eyjaliðið hafði frumkvæðið. Eftir um tíu mínútur tóku leikmenn Hauka völdin og voru með eins til tveggja marka forskot lengst af.

Á 16. mínútu tóku dómarar leiksins stóra ákvörðun þegar þeir vísuðu  Grétari Þór Eyþórssyni af leikvelli eftir að vítakast hans hafnaði í höfði Giedrius Morkunas, markvarðar Hauka. Morkunas hreyfði sig þegar kastið var tekið og því var dómurinn rangur. Það var ekki fyrr en hann kvartaði við Gísla H. Jóhannsson, annan dómara leiksins, sem Gísli fór eftir stutta umhugsun í vasann og reif upp rauða spjaldið.  Grétar kom ekkert meira við sögu.

Haukar hertu tök sín á leiknum eftir því á leið fyrri hálfleikinn og höfðu fjögurra marka forskot í hálfleik, 14:10. Stærsti munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var markvarslan sem var mikið betri hjá Morkunas í marki Hafnarfjarðarliðsins en hjá kollegum hans hinum megin vallarins.

Lítið var skorað á upphafsmínútum síðari hállfeiks þar sem sóknarleikurinn galt fyrir grimman varnarleik beggja liða auk þess sem Morkuna hélt uppteknum hætti í mark Hauka en félagar hans skotu meira framhjá marki Eyjamanna. Eftir 12 mínútur í síðari hálfleik var staðan  17:12, Haukum í vil og Eyjamenn ekki líklegir til að saxa á forskotið að ráði.

Sóknarleikur Hauka gekk treglega og liðið skoraði ekki nema eitt mark á tíu mínútna kafla og Eyjamenn jöfnuðu metin, 18:18, þegar átta mínútu voru eftir og var þar að verki Hákon Daði Styrmisson sem tók stöðu Grétars Þór við rauða spjaldið í fyrri hálfleik. Allt var á suðupunkti í Höllinni. Voru Haukar að missa leikinn algjörlega út úr höndunum á lokakaflanum eftir að hafa verið fimm marka forskot?

Sú var raunin. Eyjamenn voru komnir á bragðið. Stemningin frá úrslitakeppni liðanna í vor um Íslandsmeistaratitilinn kom upp. Eyjamönnum héldu engin bönd, hvorki innan vallar né utan og þeir unnu sætan sigur eftir pólskipti í kappleiknum.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

ÍBV 23:21 Haukar opna loka
60. mín. Agnar Smári Jónsson (ÍBV) skoraði mark - 55 sek eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert