Lögreglan í Vestmannaeyjum réði sér ekki fyrir kæti

Nýkrýndir bikarmeistarar ÍBV í handbolta fengu frábærar móttökur þegar þeir komu heim með bikarinn í gærkvöldi. Samkvæmt umfjöllun Eyjafrétta var klukkan farin að ganga í tólf á miðnætti þegar Herjólfur lagðist að bryggju. Eyjamenn létu það hins vegar ekki á sig fá og flykktist fólk niður á bryggju til að fagna meisturunum.

Eftir fögnuðinn virðist sem litið hafi verið til æðri máttarvalda eða svo gripið sé niður í umfjöllun Eyjafrétta: „Og hafi einhver efast um að Guð almáttugur haldi með ÍBV þá hvarf sá efi í gærkvöldi því veður var eins gott og það getur orðið á þessum árstíma, blankalogn og bjart. Eitthvað sem Eyjamenn hafa ekki séð í margar vikur.“

Segir enn fremur að veðrið hafi átt þátt í að skapa stemningu sem ekki verði með orðum lýst og muni seint líða liðsmönnum ÍBV úr minni. Þá var flugeldum skotið upp og blys loguðu á Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti. Samkvæmt upplýsingum Eyjafrétta voru á annað þúsund manns mættir til að fagna bikarmeisturunum. Um nóttina var haldin sigurhátíð í Höllinni og á Háaloftinu.
Að sögn lögreglu fór nóttin vel fram í Eyjum þó að töluvert af fólki hafi tekið þátt í fögnuðinum. Samkvæmt lögreglu virðist sem svo að flestir hafi tekið þann pól í hæðina að leyfa gleðinni að ríkja. Voru því þau samskipti sem lögregla átti á annað borð við almenning í nótt ánægjuleg. Svo virðist sem lögreglan hafi heldur ekki ráðið sér fyrir kæti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert