Björgvin hætti eftir æfingu í kvöld

Björgvin Rúnarsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs ÍR.
Björgvin Rúnarsson er hættur sem þjálfari kvennaliðs ÍR. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Björgvin Rúnarsson er hættur þjálfun kvennaliðs ÍR í handknattleik. Hann stýrði sinni síðustu æfingu hjá liðinu í kvöld. Þetta staðfesti Björgvin við mbl.is fyrir stundu.

„Ég geng sáttur frá verki mínu hjá ÍR. Það hefur verið lærdómsrík," sagði Björgvin við mbl.is en hann tók við þjálfun ÍR á síðasta sumri eftir að hafa þjálfað í Noregi um nokkurra ára skeið. 

Í gær tilkynnti handknattleiksdeild ÍR að Björgvin héldi ekki áfram þjálfun ÍR-liðsins að loknu núverandi keppnistímabili en til stæði að hann héldi áfram störfum fram yfir síðasta leik ÍR-liðsins í Olís-deildinni. Nú hefur svo sannarlega orðið breyting þar á.

ÍR sendi lið á nýjan leik í Olís-deild kvenna í haust sem leið eftir nokkurra ára fjarveru. Leikmenn liðsins eru ungir og ljóst að keppnistímabilið yrði þeim erfitt. Sú hefur og orðið raunin því ÍR-liðið er í neðsta sæti með eitt stig að loknum 18 leikjum. 

ÍR tekur á móti Haukum í 19. umferð Olís-deildar annað kvöld í íþróttahúsinu í Austurbergi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert