Karabatic á förum til PSG?

Nikola Karabatic reynir skot gegn Íslandi á HM í Katar …
Nikola Karabatic reynir skot gegn Íslandi á HM í Katar en Sverre Jakobsson er til varnar. mbl.is/Golli

Frakkinn Nikola Karabatic, sem í síðustu viku var útnefndur besti handknattleiksmaður heims, verður að öllum líkindum liðsfélagi Róberts Gunnarssonar hjá Paris Saint Germain á næstu leiktíð ef marka má frétt TV 2 í Danmörku.

Samkvæmt TV 2 hefur PSG unnið að því hörðum höndum að fá skærustu stjörnu handboltaheimsins til sín frá Barcelona, en takist það myndi liðið geta teflt fram þeim Mikkel Hansen, Karabatic og Kim Andersson í skyttu- og leikstjórnandahlutverkunum á næstu leiktíð.

„Það er rétt að París hefur haft samband með það í huga að kaupa Karabatic,“ sagði Gustavo Galvche, fjölmiðlafulltrúi Barcelona, við TV 2. Karabatic er falur fyrir rétt verð.

„Nikola á tvö ár eftir af samningnum sínum við Barcelona. Ég get staðfest það að hann er með klásúlu sem gerir honum kleyft að fara fyrir tvær milljónir evra. Meira get ég ekki sagt,“ sagði Galvche.

Thomas Kristensen, íþróttafréttamaður TV 2, segir á Twitter-síðu sinni að samkomulag á milli félaganna sé frágengið og að PSG greiði 2 milljónir evra fyrir Karabatic. Þá sé sterkur orðrómur þess efnis að PSG muni líka fá Luka Karabatic, bróður Nikola, og þjálfarann sigursæla Noka Serdarusic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert