Stærsta stjarna Norðmanna hætt með landsliðinu

Heidi Löke og Karoline Dyhre Breivang fagna marki í desember …
Heidi Löke og Karoline Dyhre Breivang fagna marki í desember síðastliðnum. AFP

Sigursælasti og leikjahæsti leikmaður í sögu norska kvennalandsliðsins í handknattleik og þótt víðar væri leitað, Karoline Dyhre Breivang, hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna og því ljóst að Þóris Hergeirssonar íslensks landsliðsþjálfara liðsins bíður verðugt verkefni að fylla skarð hennar í framtíðinni.

Breivang, sem er 34 ára gömul, á að baki 305 landsleiki með norska landsliðinu og er það met, ekki aðeins hjá norska kvennahandboltalandsliðinu heldur hjá öllum öðrum norskum landsliðum.

„Eftir 14 frábær ár sem handboltakona fyrir Noreg hef ég ákveðið að binda enda á landsliðsferil minn,“ sagði Breivang.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun, en eftir annað Evrópumótsmeistaragull sem fyrirliði og með metlandsleikjafjölda að baki, þá tel ég þetta sé rétti tíminn,“ sagði Breivang á opinberri vefsíðu norska handknattleikssambandsins.

Breivang er gríðarlega sigursæll leikmaður en hún vann alla þá titla sem nefndir eru hér að neðan.

Evrópumótið: 2004, 2006, 2008, 2010, 2014.
Heimsmeistaramótið: 2011
Ólympíugull: 2008 og 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert