Ætlum að taka 4. sætið af FH

Janus Daði Smárason átti frábæran fyrri hálfleik og var einkar …
Janus Daði Smárason átti frábæran fyrri hálfleik og var einkar duglegur við að finna félaga sína í dauðafærum. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er fyrsta skiptið sem ég spila í Krikanum í meistaraflokki, svo þetta var hörkuupplifun,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður Hauka, eftir stórsigurinn á FH í Olís-deildinni í kvöld, 33:20.

„Þetta skemmir ekki sjálfstraustið hjá okkur. Við erum á uppleið og þetta er stór plús. Núna eigum við betri innbyrðis stöðu gegn FH sem er í 4. sæti, og við ætlum okkur í það sæti,“ sagði Janus en eitt stig skilur liðin að.

Haukar komust í 15:2 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins:

„Þeir sáu markið þrisvar sinnum fyrstu 20 mínúturnar. Þá fáum við hraðaupphlaup og seinni bylgjuna sem skilar okkur svona góðri forystu. Nonni [Jón Þorbjörn], Matti [Matthías Árni], Heimir og allir voru flottir í vörninni og svo vorum við agaðir í sóknarleiknu,“ sagði Janus, en FH náði mest að minnka muninn í sjö mörk snemma í seinni hálfleik:

„Það er erfitt í svona leikjum að halda áfram af sama krafti og við vorum fullseinir í gang í seinni hálfleik,“ sagði Janus, en Haukar komust aftur í gang eftir leikhlé Patreks Jóhannessonar. „ Ég lofaði Patta að við þyrftum ekki að taka leikhlé þannig að það er sekt á mig,“ sagði Janus léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert