Framarar voru bara betri

„Framarar voru betri en við lengst af. Það var aðeins fyrsta korterið sem við höfðum yfirhöndina en um leið og við misstum Ása út af þá datt botninn úr þessu," sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir fimm marka tap fyrir Fram í Kaplakrika í kvöld,  29:24, í Olís-deild karla í handknattleik.

„Það sem kom okkur fyrst og fremst í koll að þessu sinni var hversu fáa leikmenn við höfðum sem gátu spilað vörn, kannski enn færri en þá sem gátu leikið í sókninni," sagði Halldór Jóhann en lið hans er eftir sem áður í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum á undan Haukum sem sitja í fjórða sæti. Haukar eiga leik til góða.

Talsvert hefur verið um meiðsli í herbúðum FH-inga og enn hefur sá listi fremur lengst en hitt. Ásbjörn Friðriksson hefur verið slæmur í baki um skeið og gat ekkert beitt sér í leiknum í kvöld nema rétt á upphafsmínútunum. 

Halldór segist vonast til að meiðslalistinn verði styttri þegar kemur að úrslitakeppninni eftir páska.

Nánar er rætt við Halldór Jóhann á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert