Ætlum ekki að falla

„Við höfum verið góðir upp á síðkastið en mótinu er ekki lokið, það munar aðeins tveimur stigum á okkur og Stjörnunni þegar tvær umferðir eru eftir. En við erum sáttir við stöðuna eins og hún," sagði Kristófer Fannar Guðmundsson, markvörður Fram, eftir að liðið vann þriðja leik sinn í röð í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Fram vann þá FH, 29:24, í Kaplakrika.

Fram hefur þar með áfram tveggja stiga forskot á Stjörnuna en liðin berjast við að forðast fall úr deildinni með HK. 

„Við hugsum bara um okkur og okkar leik. Baráttan er okkar aðalsmerki. Hún skilar okkur sigrinum ásamt samstöðunni," segir Kristófer Fannar sem var á meðal bestu leikmanna Fram í kvöld. 

„Varnarleikurinn hefur verið góður hjá okkur auk þess sem við höfum verið að endurheimta leikmenn úr meiðslum.

Stefnan er að halda sér uppi. Framundan er leikur við Hauka sem við ætlum okkur að vinna og síðan sjáum við hvað gerist í lokaumferðinni," segir Kristófer en Fram og Stjarnan mætast í lokaumferðinni sem fer fram eftir viku. 

Nánar er rætt við Kristófer Fannar á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert