Tveir í höfn og einn eftir

Glaðbeittir leikmenn deildarmeistara Gróttu í handknattleik kvenna.
Glaðbeittir leikmenn deildarmeistara Gróttu í handknattleik kvenna. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Jú, það er rétt hjá þér. Tveir titlar komnir og einn eftir, er það ekki þannig sem við leggjum þetta upp?“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari kvennaliðs Gróttu í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið eftir að liðið hafði tryggt sér deildarmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í fyrsta sinn. Grótta tryggði sér titilinn með 14:32-sigri á KA/Þór í heimabæ Kára.

„Það var voða gott að klára þetta hér fyrir norðan því við eigum ÍBV á þriðjudaginn og það hefði verið allt annað verkefni að tryggja sér titilinn í þeim leik. Það er því bara mikil hamingja ríkjandi hjá okkur.

En við eigum einn titil eftir, þann stærsta, og stefnan er sett á hann. Við gerum okkur alveg grein fyrir því og ég mun skerpa á því við stelpurnar að strax eftir páska hefst baráttan um stóra titilinn. Það verður því voða lítið um páskaegg hjá okkur,“ sagði Kári.

Hann þakkaði góðan árangur Gróttu í vetur fyrst og fremst góðu yngriflokkastarfi félagsins síðustu árin. „Stelpurnar hafa líka lagt mikið á sig og við fengum Írisi, Önnu Úrsúlu og Karólínu til okkar á nýjan leik og þær eru mikilvægar ásamt Anett Köbli með alla sína reynslu í bland við ungu stelpurnar okkar,“ segir hann og nefnir Lovísu, Evu Björk og Guðnýju, sem allar eru ungar að árum og hafa gegnt stóru hlutverki í liðinu í vetur líkt og Laufey Ásta sem hefur leikð vel í vetur.

„Úrslitakeppnin hefst strax annan í páskum og við ætlum okkur að gera atlögu að þeim titli líka,“ sagði Akureyringurinn Kári Garðarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert