Nýtir sér uppsagnarákvæði

Gunnar Magnússon
Gunnar Magnússon mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Gunnar Magnússon staðfesti við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann ætlaði sér ekki að halda áfram þjálfun Íslands- og bikarmeistara ÍBV að lokinni yfirstandandi handknattleiksvertíð. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið að sinni en Eyjamenn mæta FH í lokaumferð Olís-deildarinnar í Kaplakrika í kvöld.

Gunnar var með þriggja ára samning við ÍBV með uppsagnarákvæði eftir tvö ár. Að vandlega íhuguðu mál ákvað Gunnar að nýta sér uppsagnarákvæðið og munu þar mestu hafa ráðið fjölskylduástæður. Eftir því sem næst verður komist vill fjölskyldan búa nær höfuðborginni.

Árangur Gunnars með ÍBV hefur verið mikið ævintýri. Hann tók við liðinu sem nýliðum í Olís-deildinni sumar 2013 eftir að hafa þjálfað í Noregi um nokkurra ára skeið. Ásamt Arnari Péturssyni stýrði Gunnar ÍBV til sigur á Íslandsmótinu fyrir nærri ári síðan eftir ævintýralega leiki, fyrst við Val í undanúrslitum og síðan gegn Haukum í fimm leikja einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Á ýmsu hefur gengið há ÍBV á þessari leiktíð og sem stendur er ÍBV í sjöunda sæti Olís-deildarinnar. Liðið sýndi hinsvegar allar sínar bestu hliðar í Coca Cola bikarnum og fagnaði sigri í bikarkeppninni í lok febrúar.

Óvíst er hvað Gunnar tekur sér fyrir hendur þegar samningi hans við ÍBV lýkur. Hann var á dögunum orðaður við þjálfarastarfið hjá Haukum. Auk þjálfunar ÍBV-liðsins er Gunnar aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í handknattleik.

Heimildir Morgunblaðsins herma að forráðamenn ÍBV séu stórhuga. Þeir ætla ekki að gefa eftir þótt Gunnar rói á önnur mið og hafa öll veiðarfæri úti við leit að arftaka Gunnars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert