Eins marks sigur ÍR í Breiðholtinu

ÍR og Afturelding mættust öðru sinni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Austurbergi klukkan 16 og jafnaði ÍR metin í rimmunni 1:1 með sigri 25:24. 

ÍR-ingar voru mun sterkari lengst af í leiknum og virtust eiga sigurinn vísan þegar forysta þeirra var orðin níu mörk þegar 14 mínútur voru eftir. ÍR var yfir að loknum fyrri hálfleik 15:7. Afturelding byrjaði að saxa muninn niður í framhaldinu en ÍR-ingar skoruðu ekki í 9 mínútur á þeim kafla. Lokamínúturnar urðu fyrir vikið æsispennandi og geta ÍR-ingar þakkað varamarkverði sínum Arnóri Frey Stefánssyni fyrir að landa sigrinum á lokamínútunum. Þá varði hann bæði vítakast og dauðafæri. 

Afturelding fékk boltann þegar 20 sekúndur voru eftir og gat því knúið fram framlengingu. Örn Ingi Bjarkason fékk ágætt skotfæri á síðustu sekúndunni en Arnór sá við honum. Kannski var það óþægilegt fyrir Örn að taka síðasta skotið því hann hafði ekki náð sér á strik í leiknum. 

Þegar ÍR kom sér upp átta marka forskoti í fyrri hálfleik var varnarleikur liðsins afskaplega góður og Svavar Ólafsson varði vel í markinu. Mosfellingar komust þá ekkert áleiðis í sókninni og þeir fundu ekki almennilega taktinn í leiknum fyrr en korter var eftir. 

Þriðji leikur liðanna fer fram í Mosfellsbæ á þriðjudagskvöldið en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitin. Spurningin er hvernig lið Aftureldingar verður mannað í þeim leik. Jóhann Jóhannsson fékk rauða spjaldið í leiknum og spurning hvað aganefndin kemur til með að lesa út úr skýrslu dómaraparsins. Sjálfsagt skýrist það á morgun hvort Jóhann fái leikbann eða ekki en hann fékk rauða spjaldið fyrir brot á Björgvini Hólmgeirssyni sem virtist fá högg á hálsinn. Þá fór Jóhann Gunnarsson Einarsson meiddur af velli í fyrri hálfleik og óljóst hvers eðlis meiðslin eru. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

ÍR 25:24 Afturelding opna loka
60. mín. Jakob Stefánsson (ÍR) tapar boltanum Leiktöf 20 sek eftir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert