Langt frá því að vera búið

„Þótt við séum komnir með tvo vinninga þá er þessi rimma langt frá því að vera búin. Við verðum að vera klárir í slaginn í næsta leik á þriðjudaginn,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eftir að liðsmenn hans unnu Val öðru sinni í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik í dag. Haukar eru þar með komnir með tvo vinninga í rimmunni en Valsmenn eru enn án sigurs. Vinna þarf þrisvar til þess að komast í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn.

„Valsliðið er það sterkt að við megum alls ekki slaka á. Ef við höldum eitthvað annað þá getur illa farið,“ sagði Patrekur sem rifjaði upp að Haukaliðið var 2:0 undir í undanúrslitum gegn FH en náði að snúa taflinu við og vinna þrjá síðustu leikina. „Þá leið okkur ekki vel en um leið vissum við að við gætum gert betur. Ég er viss um að Valsmenn hugsa svipað núna. Þeir munu ekki gefa neitt eftir á þriðjudaginn á sínum heimavelli. Ég sé samt möguleika í okkar í leik til framfara,“ sagði Patrekur.

Nánar er rætt við Patrek á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert