„Mikill munur á fyrstu tveimur leikjunum“

Gunnar Malmquist Þórsson lék vel í vörninni í dag.
Gunnar Malmquist Þórsson lék vel í vörninni í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við mætum bara af fullum krafti í næsta leik og hefjum hann eins og við enduðum þennan,“ sagði Gunnar Malmquist Þórsson, hornamaður Aftureldingar, við mbl.is eftir að liðið tapaði 25:24 fyrir ÍR í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handknattleik í dag. 

ÍR hafði yfir 15:7 að loknum fyrri hálfleik en þegar 14 mínútur voru eftir fóru Mosfellingar að saxa á forskotið sem þá var 9 mörk. ÍR-ingar skoruðu þá ekki mark í 9 mínútur og leikurinn varð æsispenannandi á lokamínútunum en Aftureldingu tókst ekki að jafna. 

„Við mættum ekki tilbúnir til leiks. Það er augljóst og við fundum ekki réttu lausnirnar fyrr en á síðasta korterinu. Við ræddum um í hálfleik að koma til baka í síðari hálfleik en vera jafnframt rólegir. Við náðum nánast að vinna þetta upp á korteri. Þá sýndum við okkar rétta andlit en það er eiginlega ótrúlegt að okkur tækist nærri því að jafna. Það var mikill munur á þessum leik og þeim fyrsta. Ég veit ekki af hverju. Kannski er þetta eitthvað andlegt og kannski eru viðbrigði að koma á erfiðan útivöll,“ sagði Gunnar við mbl.is í Austurberginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert