Rúnar bjargvættur gegn Flensburg

Rúnar Kárason skoraði á lokasekúndunni í dag.
Rúnar Kárason skoraði á lokasekúndunni í dag. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handknattleik, var markahæsti leikmaður Hannover-Burgdorf þegar liðið tók á móti Flensburg í þýsku 1. deildinni í dag.

Rúnar tryggði Burgdorf stig þegar hann jafnaði metin á lokasekúndu leiksins, 25:25, og gerði þar sitt fimmta mark í leiknum. Spennan var mikil því jafnt var á öllum tölum síðustu 20 mínútur leiksins og liðin voru með forystuna til skiptis. Ólafur Guðmundsson skoraði ekki fyrir Burgdorf í leiknum. Danski hornamaðurinn Anders Eggert var markahæstur hjá Flensburg með 7 mörk.

Burgdorf er með 27 stig í 13. sæti deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan fallsæti, og stigið því dýrmætt til að koma liðinu í örugga höfn. Flensburg er í 3. sæti með 47 stig, átta stigum á eftir toppliði Kiel og sex stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach sem sigraði Lemgo, 28:26, á útivelli. Gummersbach siglir lygnan sjó í 10. sæti deildarinnar með 30 stig úr 32 leikjum en hið gamalkunna lið Lemgo situr nú í fallsæti, sextánda sætinu, með 22 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert