Fyrri hálfleikur slakur

Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, var óánægður með byrjun sinna minna í fyrsta leik liðsins við Víking í umspili um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik. Lokatölur í leiknum í Víkinni í kvöld urðu 27:21 fyrir Víking sem leiðir því í einvíginu. 

„Við byrjuðum bara ekki leikinn. Þannig að það gerði okkur erfitt fyrir. Við vorum svo reyndar búnir að gera þetta að leik þegar um það bil fimm mínútur voru eftir. Þá fáum við brottvísun og þeir skora þrjú mörk í röð og þar með var leikurinn farinn.“

Slæm byrjun varð Fjölni að falli

„Það vantaði kraft og baráttu í fyrri hálfleik, við spiluðum hann mjög illa. Þeir komust í þægilegt forskot strax í upphafi leiks sem erfitt var að brúa. Við sýndum þó karakter í seinni hálfleik með því að koma til baka og minnka muninn í tvö mörk og búa til leik. Þá var næsta mark mikilvægt og það koma því miður þeirra megin og við fengum brottvísun í kjölfarið. Þá var þetta orðið brött brekka og þeir sigldu þessu í land.“

Arnar var beygður en ekki brotinn eftir tap Fjölnis í kvöld og er viss um að liðið mæti sterkt til leiks í annan leik liðanna í Grafarvogi á fimmtudaginn kemur.

„Þetta er bara úrslitakeppni og það er bara næsti leikur. Það er enginn tími til að syrgja þetta tap. Nú verðum við bara að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir leikinn í Grafarvoginum á fimmtudaginn. Við þurfum að finna fleiri glufur á Víkingsvörninni en við gerðum í kvöld. Við þurfum að sækja að meiri krafti á þá á fimmtudaginn. Við vorum allt of ragir í sóknarleiknum í kvöld og menn verða að vera áræðnari í leiknum á fimmtudaginn.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert