Sterk vörn skóp sigurinn

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings, var ánægður með sigur liðsins í fyrsta leik Víkings við Fjölni í umspili um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik. Lokatölur í Víkinni í kvöld urðu 27:21 fyrir Víking. 

„Við stefndum að sjálfsögðu að því að vinna þennan leik í kvöld og koma okkur í forystu í einvíginu. Við byrjuðum leikinn vel og af miklum krafti. Heilt yfir vorum við góðir varnarlega. Við vorum einbeittir og grimmir varnarlega. Það var það sem skóp þennan sigur fannst mér, það er góður varnarleikur.“

Magnús Gunnar Erlendsson góður í marki Víkings 

Magnús Gunnar Erlendsson markvörður Víkings stóð sig afar vel í leiknum í kvöld og varði bæði mörg skot sem og skot á mikilvægum augnablikum í leiknum. 

„Maggi (Magnús Gunnar Erlendsson) er náttúrulega bara klassamarkmaður. Við erum með þrjá mjög góða markmenn og það er mikil samkeppni um markmannsstöðuna. Magnús Gunnar átti góðan leik í kvöld og var góður á bak við sterka vörn.“

Ágúst Þór er ánægður með að vera kominn í forystu í einvíginu, en veit að það er nóg eftir í einvíginu.

„Nú er bara 1:0 og við þurfum að ná okkur niður á jörðina aftur og undirbúa okkur vel fyrir leikinn í Grafarvogi á fimmtudaginn kemur. Leikmenn mínir voru áræðnir og sókndjarfir í leiknum í kvöld og það verður að vera það sama uppi á teningnum á leiknum á fimmtudaginn. Við fundum það í leiknum í kvöld að um leið og við slökum á þá er voðinn vís. Fjölnismenn eru með hörkulið og létu okkur hafa virkilega mikið fyrir sigrinum í kvöld og við verðum að vera klárir í leikinn á fimmtudaginn ef vel á að fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert