„Ég er mjög glaður með þennan punkt“

Stefán Rafn Sigurmannsson lenti í furðulegri atburðarrás gegn Serbum í kvöld þegar lettnesku dómararnir dæmdu á hann línu í tvígang og einnig ruðning. Í tveimur tilfellum í það minnsta átti Stefán að fá vítakast að mati blaðamanns.

Stefán átti varla orð til þess að lýsa dómgæslunni en hann lét þó ekki deigan síga og skoraði 23. mark Íslands og minnkaði þá muninn í 25:23. Ísland skoraði í kjölfarið síðustu tvö mörk leiksins úr hraðaupphlaupum og náði jafntefli 25:25.

Með sigri gegn Ísrael úti og Svartfjallalandi heima getur Ísland unnið riðilinn í undankeppninni og á nú alla möguleika á því að komast í lokakeppnina í Póllandi í janúar.

Stefán var áræðinn í leiknum enda þurfti hann að fylla skarð fyrirliðans Guðjóns Vals Sigurðssonar sem er ekki auðvelt verk eins og nærri má geta. Viðtalið við Stefán má sjá á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert